Að opna dyr eða flóðgáttir? Vangaveltur í tilefni af Viku opins aðgangs 2025
Í tilefni af Alþjóðlegri viku opins aðgangs veltum við því fyrir okkur hvort við séum að opna dyr að þekkingu eða hvort við höfum opnað flóðgáttir upplýsinga. Í þættinum ræðum við við Píu Sigurlínu Vinnika, upplýsingafræðing, um upplýsingaflóðið, gagnrýna hugsun og nýja tækni á borð við gervigreind. Hvernig geta verkfæri eins og Scite.ai hjálpað okkur að synda í hafsjó vísindagreina og hvernig þurfum við að þjálfa okkur í að „prompta“ til að nýta tæknina sem best? Þetta er samtal um framtíð þekkingaröflunar.

Smelltu til að stækka
Gestir
Pia Susanna Sigurlína Viinikka
Verkefnastjóri þjónustudeildar • Háskólaskrifstofa-Upplýsingaþjónusta og bókasafn
Þáttarnótur
Í þessari viku 20.–26. nóvember 2025 stendur yfir Alþjóðlega vika opins aðgangs (Open Access Week), en hún er tileinkuð því að vekja athygli á mikilvægi þess að þekking og rannsóknir séu aðgengilegar öllum, óháð efnahag eða staðsetningu (sjá nánar á openaccess.is). Þetta er göfugt markmið sem á rætur að rekja til þeirrar hugsjónar að þegar við deilum þekkingu vöxum við öll saman.
En hvað þýðir „opinn aðgangur“ á tímum þar sem gervigreind getur framleitt og síað upplýsingar á ógnarhraða? Áskorun okkar er ekki lengur aðeins að opna dyr að þekkingu, heldur að læra að synda í því upplýsingahafi sem við höfum skapað. Erum við að opna dyr eða höfum við opnað flóðgáttir?
Í tilefni vikunnar settist ég niður með Pia Susanna Sigurlína Viinnika, upplýsingafræðingi á bókasafni Háskólans á Akureyri, í sérstökum þætti af hlaðvarpinu mínu, „Temjum tæknina“. Pia og samstarfsfólk hennar standa daglega í framlínunni við að leiðbeina nemendum og fræðafólki um þetta flókna landslag. Eins og hún minnti mig á er kjarninn í starfi þeirra óbreyttur:
„Mantra okkar upplýsingafræðinga er að veita jafnan aðgang að upplýsingum.“
Árlega koma út tugir milljóna vísindagreina. Engin manneskja getur fylgst með slíku magni. Það er hér sem ný tækni getur orðið öflugur bandamaður – ef við temjum hana rétt. Í þættinum ræddum við Scite.ai, gervigreindarverkfæri sem við erum að innleiða í háskólanum. Það sem heillar mig við það er að það er ekki hannað til að gefa okkur einföld svör, heldur til að hjálpa okkur að spyrja betri spurninga. Það hjálpar okkur að takast á við eina af grunnáskorunum þekkingarleitarinnar:
„Hvernig geturðu metið gæði heimildarinnar?“
Scite.ai greinir hvernig aðrar rannsóknir hafa vitnað í tiltekna heimild – hvort þær styðji hana, vefengi hana eða aðeins minnist á hana. Þetta gefur okkur samhengið sem við þurfum til að mynda okkar eigin, upplýstu skoðun.
En tæknin er aðeins helmingurinn af lausninni. Hinn helmingurinn liggur hjá okkur sjálfum. Eins og Pía benti réttilega á er ný færni orðin nauðsynleg: „Við þurfum líka að kenna að prompta,“ sagði hún. Við þurfum að læra að eiga samtal við tæknina, að móta fyrirspurnir okkar af nákvæmni og gagnrýni. Þetta er ekki aðeins tæknileg kunnátta; þetta er í raun þjálfun í skýrri hugsun.
Þetta samtal við Piu og þessar vangaveltur vöktu aftur hjá mér hugsun sem ég hef glímt við – þessa tilfinningu um að vera í miðju stórkostlegs umróts. Þetta ástand hef ég kallað Aðgangslost; skyndileg breyting á aðgengi sem kallar á endurmat á öllu sem við héldum að við vissum.
Það er auðvelt að fyllast yfirþyrmandi tilfinningu í slíku ástandi. En þetta eru líka ótrúlega spennandi tímar. Við höfum tækifæri til að endurskilgreina samband okkar við þekkingu, efla gagnrýna hugsun og nýta tæknina til að dýpka skilning okkar frekar en að grynnka hann.
Hvernig tekst þú á við upplýsingaflóðið? Hvaða hlutverki sérð þú fyrir þér að opin vísindi og ný tækni muni gegna í framtíðinni? Ég hvet þig til að hlusta á samtalið við Píu og taka þátt í þessari mikilvægu umræðu.
Lag þáttarins
Hlusta á þáttinn
Tengdir þættir
Sjá alla þætti
Múrarameistarinn sem lifir það sem aðrir skrifa bækur um
Samtal við Smára Sigurðsson múrarameistara um handverk, ábyrgð og lífið áður en tölvuöldin tók við. Hvernig lærist Deep Work og stóísk heimspeki ekki úr bókum heldur með því að horfa á meistara vinna og handlanga verkfærin á réttum tíma.

Er íslenskan týnd í þýðingu? Tungumálið, tæknin og framtíðin.
Er íslenskan að týnast í þýðingu á stafrænum tímum? Í nýjasta þætti Temjum tæknina ræði ég við Lilju Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóra Almannaróms. Við köfum ofan í stöðu tungumálsins á öld gervigreindar og ræðum hvernig við tryggjum að íslenskan verði gjaldgeng í tæknisamfélagi framtíðarinnar, en endi ekki sem fornminjar á safni.

Skugginn í vélinni: Að leita að mennskunni í stafrænu ræsi
Er gervigreind bara tækni eða endurspeglun á okkur sjálfum? Gestir þáttarins eru Dr. Roberto Buccola og Giorgio Baruchello heimspekingur. Við ræðum tengsl tækni, sálfræði og goðsagna og skoðum ólíka menningarheima Íslands og Sikileyjar sem myndlíkingu á hvernig við nálgumst hið ómeðvitaða.