Fyrirmælahönnun (Prompt Engineering)
Yfirlit
- Lestrartími: ~10 mínútur
- Erfiðleikastig: Byrjandi
- Forsendur: Engar
Góð fyrirmæli (prompts) eru lykilatriði í árangursríkum samskiptum við stór mállíkön. Í þessari leiðbeiningu munum við fara yfir aðferðafræði fyrirmælahönnunar til að fá sem mest út úr stórum mállíkönum. Við munum skoða dæmi um skilvirk og óskilvirk fyrirmæli og læra hvernig við getum bætt samskiptin okkar við stór mállíkön með kerfisbundnum hætti.
Grunnreglur fyrirmælahönnunar
Skilvirk fyrirmæli fylgja nokkrum lykilreglum sem auka líkurnar á gagnlegum niðurstöðum frá stórum mállíkönum:
1. Skilgreindu hlutverk þitt
Til dæmis: "Ég er nemandi í háskóla" eða "Ég er kennari að undirbúa kennsluefni"
2. Útskýrðu þekkingarstig þitt
Til dæmis: "Ég er algjör byrjandi í forritun" eða "Ég hef grunnþekkingu á Excel"
3. Skilgreindu hlutverk mállíkansins
Til dæmis: "Vertu sérfræðingur í Python" eða "Útskýrðu þetta eins og ég sé 10 ára"
4. Lýstu verkefninu nákvæmlega
Mjög mikilvægt er að vera skýr í lýsingu: "Ég þarf að gera eftirfarandi: [nákvæm verkefnalýsing]"
Uppbygging fyrirmæla
Dæmi um skilvirka uppbyggingu:
- Kynning á notanda: "Ég er byrjandi að læra forritun..."
- Samhengi: "Ég hef áhuga á að læra að forrita vefforrit..."
- Skilgreining á hlutverki mállíkansins: "Ég vil að þú takir hlutverk reynds forritara sem kennir byrjendum..."
- Markmið: "Ég vil læra grunninn í vefforritun til að geta búið til mitt eigið portfolio..."
- Nákvæm spurning/beiðni: "Getur þú útskýrt fyrir mér skref fyrir skref hvaða forritunarmál væri best fyrir mig að byrja á og af hverju?"
Dæmi um skilvirk fyrirmæli:
"Ég er háskólanemi í viðskiptafræði með litla reynslu af Excel. Ég þarf að greina sölugögn fyrir verkefni. Getur þú tekið hlutverk Excel sérfræðings og útskýrt fyrir mig skref fyrir skref hvernig ég get búið til pivot töflu fyrir sölugögn? Vinsamlegast hafðu útskýringarnar nákvæmar og við skulum taka þetta í smáum skrefum þar sem ég get prófað og látið þig vita hvernig gengur."
Dæmi um fyrirmæli tengd starfi:
"Ég er [starfstitill, t.d. markaðsfulltrúi] og er að vinna að [verkefnalýsing, t.d. markaðsherferð á samfélagsmiðlum]. Ég vil að þú takir hlutverk [sérfræðingur, t.d. reynds markaðsstjóra] og aðstoðir mig við að [nákvæm lýsing á því sem þú vilt fá hjálp með]. Ég hef sérstakan áhuga á [sérstök atriði sem þú vilt fá nánari upplýsingar um]."
Dæmi og samanburður
❌ Óskilvirk fyrirmæli:
-
"Hvernig virkar Python?"
Of óljóst og víðtækt, vantar samhengi og tilgang
-
"Útskýrðu fyrir mér gervigreind"
Vantar samhengi, tilgang og þekkingarstig notanda
-
"Hjálpaðu mér með verkefnið mitt"
Engar upplýsingar um verkefnið, vantar algjörlega samhengi
✅ Skilvirk fyrirmæli:
-
"Ég er byrjandi í Python og vil læra um gagnaskipan. Gætir þú tekið hlutverk forritunarkennara og skrifað fyrir mig einfaldan kóða sem sýnir mismunandi gagnategundir í Python með ítarlegum athugasemdum (comments) til að ég skilji betur hvernig þetta virkar?"
Skýrt hlutverk, afmarkað efni, skýrt markmið og beiðni
-
"Sem kennari í framhaldsskóla er ég að undirbúa kennsluefni um gervigreind fyrir 16 ára nemendur. Getur þú hjálpað mér að útskýra grundvallarhugtök stórra mállíkana á einfaldan hátt sem myndi höfða til unglinga? Ég vil sérstaklega leggja áherslu á siðferðisleg álitamál tengd gervigreind."
Gefur upp hlutverk, markhóp, tilgang og afmarkar umræðuefnið
Algeng mistök í fyrirmælahönnun
-
⚠️
Of óljós fyrirmæli
Forðastu að spyrja of víðtækra spurninga án samhengis. Afmarkaðu spurninguna.
-
⚠️
Vantar samhengi
Gefðu alltaf upp nauðsynlegar upplýsingar um aðstæður þínar og þekkingarstig.
-
⚠️
Of margar spurningar í einu
Betra er að skipta flóknum verkefnum upp í minni skref og fókusera á eitt atriði í einu.
-
⚠️
Óskýr væntingar
Skilgreindu nákvæmlega hvernig svar þú vilt fá (t.d. ítarlegt, einfalt, með dæmum o.s.frv.).
Áframhaldandi samtal með stórum mállíkönum
Þegar þú ert komin/n í samtal við stórt mállíkan er mikilvægt að:
- Spyrja ítarspurninga ef eitthvað er óljóst
- Gefa endurgjöf um hvort útskýringar séu hjálplegar eða ekki
- Biðja um sértæk dæmi ef þörf er á
- Láta vita ef þú skilur ekki eitthvað og biðja um aðra nálgun
- Biðja um nánari útskýringar á hugtökum sem eru óljós
- Nota sömu uppbyggingu fyrirmæla eins og í upphaflegu fyrirmælunum